Í kjölfar samþykktar bæjarráðs Kópavogs í lok apríl var gengið til samninga við VÍS um tryggingar sveitarfélagsins. Samið var við lægstbjóðanda í útboði á tryggingum bæjarins og Húsnæðisnefndar Kópavogs. Sveitarfélagið hefur í áratugi tryggt starfsemi sína hjá VÍS og var í byrjun maí skrifað undir samning um að halda því góða samstarfi áfram næstu ár.  

Kopavogsbaer_undirritun_web.jpg
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs og Auður Björk Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs VÍS við undirritun samnings.

  „Samningurinn felur meðal annars í sér að lögð er rík áhersla á hvers kyns forvarnir hjá Kópavogsbæ,“ segir Auður Björk Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs VÍS.

Við státum af miklum reynsluboltum á því sviði og bindum miklar vonir við þetta samstarf. Eftir höfðinu dansa limirnir og sá áhugi sem við finnum hjá stjórnendum Kópavogs til að efla forvarnir bæjarins á eftir að smita út frá sér og gefa góða raun. Við fögnum því að Kópavogur beini viðskiptum sínum áfram til VÍS og munum veita framúrskarandi þjónustu hér eftir sem hingað til eins og viðsemjendur okkar þekkja.

Til að fylgja forvarnarstarfi bæjarfélagsins kröftuglega eftir á samningstímanum hefur Kópavogsbær tilnefnt sérstakan starfsmann af sinni hálfu til að halda utan um og stýra því með liðsinni VÍS.