Fjarðabyggð hefur samið við VÍS um að tryggja sveitarfélagið. Samningurinn er til þriggja ára og gerður í kjölfar útboðs. Heiðurinn að þessu á Þorri, hinn ötuli þjónustustjóri fyrirtækjaþjónustu á Norður- og Austurlandi. Hann átti þó ekki heimangengt úr Eyjafirðinum við undirritun samnings þar sem veðurguðirnir reyndust ekki nægilega hliðhollir.

Methúsalem Einarsson umdæmisstjóri VÍS á Austurlandi tók þá við keflinu. „Það er ánægjulegt að fá Fjarðabyggð til okkar á ný. Við erum með með meirihluta sveitarfélaga landsins í viðskiptum, búum því að mikilli reynslu í þessum ranni og höfum miklu að miðla.“