Bolungarvík tryggir hjá VÍS næstu fjögur árin líkt og undanfarna áratugi. Elías Jónatansson bæjarstjóri og Guðni Ólafur Guðnason umdæmisstjóri VÍS á Vestfjörðum skrifuðu fyrir skemmstu undir samning þessa efnis.

„Bolungarvíkurkaupstaður hefur tryggt hjá VÍS og forverum þess áratugum saman. Síðast þegar farið var í útboð með tryggingar sveitarfélagsins reyndist tilboðið frá VÍS vera hagstæðast. Nú hafa aftur náðst samningar á milli aðila sem ég tel að séu mjög hagstæðir sveitarfélaginu og því sjáum við ekki ástæðu til breytinga á því sem vel hefur gengið," segir Elías. 

bolungarvik_visis.jpg
Elías Jónatansson bæjarstjóri og Guðni Ólafur Guðnason umdæmisstjóri VÍS á Vestfjörðum.

Guðni er að sama skapi sæll með ráðahaginn. „Bolvíkingar hafa bryddað upp á ýmsu skemmtilegu í gegnum tíðina sem fellur vel að okkar forvarnastarfi. Þar má til dæmis nefna þegar slökkviliðið gekk í hús fyrir jólin 2014, gaf reykskynjara og skipti um rafhlöður eftir því sem við átti. Þetta framtak er til fyrirmyndar og getur bjargað mannslífum. Okkur er bæði heiður og akkur í því að hafa svona viðskiptavin."