Ánægjulegt er að sjá að hjólreiðar njóta sífellt meiri vinsælda. Enn og aftur er þátttökumet slegið í WOW Cyclothon sem verður nú haldið í fimmta skipti. Tæplega 1.200 einstaklingar hafa skráð sig til leiks. Fyrstu keppendurnir leggja í hann seinni partinn í dag. Flestir verða ræstir út á morgun, 15. júní kl. 17:00 og 18:00 þegar 123 lið hefja keppni. Hjólað er norður um hringinn í kringum landið og í endamark á Krísuvíkurvegi, samtals 1.358 km. 

Mikilvægt er að ökumenn taki fullt tillit til keppenda. Gefi sér tíma til að fara fram úr þeim á öruggum stöðum og aki ekki of nærri keppendum. Jafnframt þurfa þeir að gæta að aðvífandi umferð og sýna þolinmæði ef aðstæður leyfa ekki framúrakstur. Að sama skapi þurfa keppendur og fylgdarlið þeirra að gæta vel að öryggi sínu, sýnileika og líkt og aðrir vegfarendur; sýna tillitssemi.