Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti hefur endurnýjað viðurkenningu Vátryggingafélags Íslands hf. sem Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.

Meðfylgjandi umsögn er byggð á úttekt á stjórnarháttum sem unnin var af Deloitte í febrúar 2016. Í umsögn Rannsóknarmiðstöðvarinnar segir að niðurstaðan gefi skýra mynd af stjórnarháttum fyrirtækisins og bendi til þess að VÍS geti að mörgu leyti verið öðrum fyrirtækjum til fyrirmyndar í góðum stjórnarháttum.

Herdís Dröfn Fjeldsted stjórnarformaður VÍS segir þetta þýðingarmikla umsögn fyrir félagið og stjórn þess. 

„Þetta er þriðja árið í röð sem VÍS hlýtur þessa viðurkenningu sem endurspeglar að vandaðir stjórnarhættir eru viðhafðir í öllu okkar starfi. Það er ánægjulegt að úttekt óháðs aðila sýni ótvírætt að starfshættir stjórnar VÍS standist vel kröfur sem gerðar eru til fyrirmyndarfyrirtækja á þessu sviði.“

Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands leggur formlegt mat á starfshætti stjórnar og stjórnenda frá ári til árs. Matið byggist í meginatriðum á því hvort gögn frá þar til bærum ráðgjöfum eða öðrum gefi til kynna að viðkomandi fyrirtæki fylgi leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og NASDAQ OMX Iceland gefa út. Þau fyrirtæki sem standast matið er veitt nafnbótin Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Markmiðið er að matsferlið auki trúverðugleika og gagnsæi stjórnarhátta fyrirtækja gagnvart hluthöfum og öðrum hagsmunaaðilum.

Hér má lesa umsögn um stjórnarhætti VÍS: Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum (PDF)