Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn |25.11.2016

Reykjavík tryggir hjá VÍS

Samningurinn gildir til fimm ára og undir hann fellur margvísleg starfsemi borgarinnar, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, Bílastæðasjóðs og Skíðasvæðanna.

Margvísleg starfsemi Reykjavíkurborgar verður tryggð hjá VÍS næstu árin. Meðal þess sem þar fellur undir eru Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Bílastæðasjóður Reykjavíkur og Skíðasvæði borgarinnar. Samið var til fimm ára í kjölfar útboðs sem þrjú tryggingafélög tóku þátt í. Samningurinn hljóðar upp á tæpar 198 milljónir króna á ári og tekur fyrst og fremst til skyldutrygginga fasteigna og ökutækja. Auður Björk Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs VÍS fagnar því að fá höfuðborgina í viðskipti. „Við búum að mikilli sérþekkingu á þessu sviði sem má til dæmis marka af því að meirihluti sveitarfélaga landsins tryggir hjá okkur. Það er engin tilviljun og við erum auðvitað mjög ánægð með að stærsta sveitarfélag landsins sjái hag sínum best borgið hjá VÍS og bætist í þennan vaxandi hóp.“

Hrólfur Jónsson stjórnandi skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá borginni skrifaði undir samninginn fyrir hönd, Jón Viðar Mattíasson fyrir SHS, Kolbrún Jónatansdóttir fyrir Bílastæðasjóð og Auður Björk fyrir VÍS.