Mörg börn nota svokallaða sundpoka undir eitt og annað sem þau þurfa að hafa með sér á ferðum sínum. Pokarnir eru einfaldir og handhægir og henta t.d. vel undir sundfötin, nestið, skóna eða hvaðeina annað smálegt sem taka þarf með.

Sumir pokanna eru með riflásum á böndunum sem gefa eftir ef átak kemur á bandið. Þeir eru þó í minnihluta og mikilvægt að átta sig á hættunni ef slíkir riflásar eru ekki til staðar. Dæmi eru um að böndin hafi farið utan um háls barna og þrengt að öndunarvegi.

Slíkt gerðist á Akureyri í sumar þegar drengur var að hjóla heim til sín með sundpoka á bakinu. Hann hafði í ógáti sett böndin þannig að þegar á þeim strekktist runnu þau utan um háls hans. Þegar böndin drógust inn í gjörð á hjólinu þrengdu þau hratt að öndunarveginum.

Sundpoki að framan.JPG
Bönd krossuð að framan geta verið varasöm. Hætta er á að böndin þrengi að öndunarvegi ef böndin festast í einhverju.

Þorvaldur Þorsteinsson faðir stráksins segir það hafa orðið honum til happs að tvær eldri konur hafi borið að. „Honum tókst ekki sjálfum að losa flækjuna sem var komin utan um hálsinn og átti orðið erfitt með andardrátt. Konurnar losuðu böndin í hvelli og vil ég þakka þeim kærlega fyrir snarræðið. Jafnframt minni ég foreldra á að ræða þessa hættu við börn sín og brýna fyrir þeim að þau vefji böndunum aldrei utan um hálsinn.“

Taka má heils hugar undir þessi varnaðarorð. VÍS bendir á að til að minnka hættu á svona slysum getur verið skynsamlegt að stytta böndin á pokunum svo þau flækist síður í eitthvað. Jafnframt sitja pokarnir þá bæði þægilegar og ofar á baki barnanna.