Olíudreifing hreppti Forvarnarverðlaun VÍS 2016 sem afhent voru á forvarnaráðstefnunni "Áskoranir atvinnulífsins í öryggismálum" sem haldin var á Grand Hótel Reykjavík í dag. Forvarnarverðlaun VÍS eru veitt fyrir framúrskarandi forvarnir og öryggismál og er Olíudreifing þar í fremstu röð.  

Forvarnarverðlaun.VIS.2016.jpg
Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri VÍS og Auður Björk Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs afhenda Gesti Guðjónssyni öryggisstjóra Olíudreifingar og Herði Gunnarssyni framkvæmdastjóra Olíudreifingar Forvarnarverðlaun VÍS 2016.

Þá fengu Guðmundur Runólfsson ehf. í Grundarfirði og Steinull hf á Sauðárkróki viðurkenningu frá VÍS fyrir góðan árangur í forvörnum og öryggismálum. 

Skýrir verkferlar, reglubundið eftirlit, þjálfun og endurmenntun starfsmanna stuðla að einstökum árangri Olíudreifingar í öryggismálum. Unnið er eftir ISO gæðastöðlum sem innleiddir eru af BSI (British Standard Institute). Lögð er rík áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir með tilliti til óhappa og slysa. Þar gegnir virk atvikaskráning síðustu tíu ára lykilhlutverki og er Olíudreifing sannkallað fyrirmyndarfyrirtæki í öryggis- og umhverfismálum.

 „Við höfum alltaf lagt mikið upp úr öryggi og heilbrigði starfsmanna okkar,“ segir Hörður Gunnarsson framkvæmdastjóri Olíudreifingar. „Formlegt forvarnastarf hófst svo af alvöru í samstarfi við VÍS. Það hefur staðið í nokkur ár og verið í alla staði mjög árangursríkt og ánægjulegt. Við byrjuðum að skrá niður hvers kyns óhöpp og slys og gátum þannig áttað okkur á stöðu þessara mála hjá okkur. Út frá því hefur verið unnið og bætt í ár frá ári. Nú förum við eftir skrifuðum verkferlum alls staðar þar sem við á og það ríkir einfaldlega miklu meiri agi í allri okkar starfsemi en áður var. Forvarnarverðlaun VÍS eru mjög ánægjulegur vottur um að okkur hafi tekist vel upp og mikil hvatning til starfsmanna okkar um að gera enn betur, því hvert óhapp er einu of mikið.“

Steinull er gott dæmi um þar sem vel hefur tekist til að efla þátttöku og virkni starfsfólks í öryggismálum vinnustaðarins. Á þriðja hundrað atriða hafa verið skráð í áhættugreiningu og atvikaskráningu undanfarin fimm ár. Lykill að árangri þeirra er að tvinna saman stórar sem smáar úrbætur þannig að stöðugt er unnið að því að gera starfsemina öruggari.

Guðmundur Runólfsson er rótgróið fjölskyldufyrirtæki þar sem umhyggja fjölskyldunnar fyrir öryggi og vellíðan starfsfólks skín í gegn. Mikið er lagt upp úr öruggu vinnuumhverfi og endurspeglast þær áherslur í mjög lágri slysatíðni bæði í landvinnslu og til sjós. 

Ásgeir Margeirsson forstjóri HS Orku sendi okkur þessa skemmtilegu vísu í tilefni af ráðstefnunni.

Hér er ekki voðinn vís
þó veðri sé að syrta.
Vinnueftirlit og VÍS
varnir okkur birta.