Fæstir gera sér grein fyrir því hversu grimmur eldur getur verið nema hafa kynnst því af eigin raun. Hann getur verið fljótur að breiðast út og eirir engu þegar hann nær sér á strik. Samkvæmt tölfræði VÍS verða flestir brunar á heimilum í desember og fast á eftir fylgir svo janúar. Rúmlega fjórðungur allra bruna á heimilum verða í þessum tveimur mánuðum. Algengast er að kvikni í út frá eldamennsku en opinn eldur er einnig tíður brunavaldur, sér í lagi yfir jólahátíðina þegar kertanotkun er hvað mest.

Mjög ánægjulegt er að sjá hvað brunum á heimilum hefur fækkað undanfarin ár. Ef skoðuð er tölfræði VÍS síðustu fimm ár, 2011-2015, þá hefur brunum fækkað um vel ríflega helming. Illu heilli hefur þeim hins vegar fjölgað um 90% á þessu ári m.v. sama tíma í fyrra. Það er afleit þróun.

Með réttri umgengni og varkárni má fyrirbyggja bruna. Þar ber hæst:

Eldavél

 • Ekki fara frá eldavél við eldamennsku.
 • Gæta þess að olía ofhitni ekki.
 • Geyma ekkert ofan á eldavél.

Kerti

 • Hafa traustar undirstöður.
 • Láta ekkert skraut liggja að kerti.
 • Hafa a.m.k. 10 cm. á milli kerta.
 • Hafa kerti ekki nærri gardínum eða í gegnumtrekki.
 • Fylgjast vel með húðuðum kertum því það getur kviknað í skrauthúðinni.
 • Staðsetja kerti þannig að ungum börnum og dýrum stafi ekki hætta af.
 • Nota kerti með kveik sem nær ekki alla leið niður.
 • Ekki setja útikerti beint á timburpall eða í gangveg.

Seríur

 • Nota ledseríur frekar en seríur með skiptanlegum perum þar sem þær fyrrnefndu eru öruggari með tilliti til brunahættu.
 • Ekki má raðtengja fjöltengi né setja of rafmagnsfrek tæki í samband við sama fjöltengið.
 • Skipta út lélegum fjöltengjum og seríum.
 • Skipta um perur sem springa.
 • Láta lofta vel um hleðslutæki sem hitna.

Jafnframt er mikilvægt að hin heilaga eldvarnaþrenning sé í hávegum höfð á heimilinu. Hún samanstendur af virkum reykskynjurum, eldvarnarteppi og slökkvitæki sem er í lagi.

 Hér má hlusta á viðtal við Sigrúnu A. Þorsteinsdóttur sérfræðing í forvörnum hjá VÍS þar sem eldvarnir voru ræddar í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.