Hlutfall þeirra sem nota hjálm á hjóli stendur nánast í stað á milli ára en 88% þeirra sem fóru fram hjá teljurum VÍS í maí voru með hjálm. Hlutfallið var 87% í fyrra. Þetta er fimmta árið í röð sem VÍS gerir slíka könnun en í þeirri fyrstu voru 74% með hjálm.

Kannanirnar hafa ávallt verið gerðar á fjórum stöðum í Reykjavík. Eins og undanfarin ár minnkar hjálmanotkun töluvert eftir því sem nær dregur miðbænum. Þar notuðu einungis sex af hverjum tíu hjálm. Í ár áttu 1.486 hjólreiðamenn leið fram hjá teljurum VÍS sem eru töluvert færri en í fyrra þegar þeir voru 1.950. Það er í takt við fækkun þátttakenda í verkefninu Hjólað í vinnuna. Í ár voru þeir 5.382 en 6.824 í fyrra.

Sýnileiki
Um þriðjungur hjólreiðafólks var í sýnileikafatnaði og hefur notkun hans aukist lítillega milli ára. Með því að klæðast honum eða nota endurskin má bæta sýnileika sinn allt að fimmfalt. Til öryggis er einnig mikilvægt að hjólreiðamenn noti bjölluna til að gera vart við sig og láti vita um stefnubreytingu í tíma með því að gefa merki þegar á að breyta henni.

Fjöldi slysa
Skráðum slysum hjólreiðafólks hefur fjölgað mikið á milli ára, skv. skráningum lögreglunnar. VÍS hefur ávallt lagt mikla áherslu á notkun hjálma í forvarnarstarfi sínu. Rannsóknir sýna að alvarlegustu slysin fela í sér höfuðmeiðsl þótt ekki séu þau algengustu slysin. Það eru slys á útlimum. Erlendar rannsóknir sýna að hjálmanotkun minnkar líkur á alvarlegum höfuðáverkum um 79% þannig að það er til mikils að vinna að allir noti hjálminn, alltaf.

Hjálmurinn
Hjálmurinn þarf að vera af réttri stærð, rétt stilltur og í lagi. Líftími hjálma er 5 ár frá framleiðsludegi og þrjú ár frá söludegi. Hann á að sitja beint ofan á höfðinu, eyrun vera í miðju V formi bandanna og einungis einn til tveir fingur að komast undir hökubandið.

Umferðin er samspil allra vegfarenda. Þeim ber öllum að fara eftir lögum og reglum og taka tillit til hvers annars.