Dekk geta skilið milli feigs og ófeigs í umferðinni. Mikill munur er á milli sumar- og vetrardekkja. Þau eru gerð úr mismunandi efnablöndu sem hitastig hefur ólík áhrif á. Sumardekkin harðna þegar kólnar í veðri. Við -7°C geta þau orðið svo glerhörð að þau virki nánast eins og skautar þannig að ökutækið renni mun hraðar yfir grund en ætlast er til. Þau henta því alls ekki á veturna. Góð vetrardekk stytta aftur á móti stöðvunarvegalengd um tugi metra.

Það vefst fyrir mörgum að velja hentugustu dekkin en ríkjandi akstursaðstæður hvers og eins ráða miklu um hvað hentar best.

  • Á ísilögðum vegi reynast negld vetrardekk hvað best út frá stöðvunarvegalengd.
  • Ef mest er ekið í bleytu og slabbi þá eru dekk sem ryðja vel frá sér vatni góður kostur þar sem þau minnka líkur á að bíll fljóti upp.
  • Vetrardekkjakönnun FÍB getur hjálpað til við valið.

Mynstursdýpt
Mynstursdýpt má ekki vera minni en 3 mm á veturna og dekkin mega ekki vera misslitin.

Vetrardekk eru merkt með þessu merki

Merkingar vetrar- og heilsársdekkja
Dekk eru merkt á hliðunum. M+S (mud/snow-slabb/snjór) stendur fyrir heilsársdekk en vetrardekk eru merkt með mynd eins og sést hér fyrir neðan.

Loftþrýstingur dekkja
Rangur loftþrýstingur veldur því að dekkin slitna hraðar, eldsneytiseyðsla eykst, hemlunarvegalengd lengist og hætta á að missa stjórn á bílnum vex.

Kannanir VÍS
Í allt of mörgum tilfellum hefur ástand dekkja á tjónabílum sem komið hafa til VÍS undanfarna vetur verið bágborið. Samkvæmt síðustu könnun voru 65% tjónabíla á of slitnum dekkjum þ.e. dýpt mynstursins var innan við 3 mm. Í 28% tilfella var loftþrýstingur dekkja of lítill og í 11% tilvika of mikill. VÍS hvetur alla ökumenn til að aka á góðum og viðeigandi dekkjum. Hreinsa þau reglulega og tryggja að réttur loftþrýstingur sé í þeim.