Ferðafélag Íslands og VÍS ætla að taka daginn snemma 9.-13. maí með hressandi morgungöngum 12. árið í röð og bjóða þér með. Að þessu sinni verður brugðið út af vananum og í stað þess að ganga á fjöll verður nú gengið á fjörur á höfuðborgarsvæðinu, allt frá Leirvogi í Mosfellsbæ til Kópavogs.

Fararstjórarnir, Páll Guðmundsson og Auður Kjartansdóttir, koma hópnum af stað með léttri morgunleikfimi og halda öllum gangandi með fróðleik og skemmtun.

Gönguleiðir:

  • Mánudagur 9. maí: Harðarból - hesthúsasvæðinu í Mosfellsbæ, Varmárbakkavegi. Ekið niður Skólabraut, framhjá Varmárskóla og að hesthúsasvæðinu. Þar hefst gangan og verður gengið niður í fjöru í Leiruvoginum og aftur til baka.
  • Þriðjudagur 10. maí: Eiði - þar sem ekið er út á Geldinganes. Ekið yfir Gullinbrú eftir Strandveginum. Þegar komið er fram hjá Gufunesi er beygt til vinstri og ekið áfram eftir Strandvegi þar til komið er að afleggjaranum út í Geldinganes. Þar er bílum lagt við Eiði, gengið í fjörunni út í Gufunes og til baka.
  • Miðvikudagur 11. maí: Höfnin við Klettagarða – Viðeyjarferjan. Bílum lagt á bílastæði Viðeyjarferjunnar, gengið út á Laugarnes, að Hörpu og til baka.
  • Fimmtudagur 12. maí: Grótta - lagt á bílastæðinu við Gróttu. Gengið eftir fjörunni og umhverfis golfvöll Seltjarnarness, út á Búðagranda, eftir Bakkagranda, að Nestjörn og aftur að bílastæði.
  • Föstudagur 13. maí: Nauthóll. Bílum lagt á bílastæði við Nauthólsvík, gengið fyrir Fossvog yfir í Kópavog og til baka.

Brottför er kl. 6:00 frá upphafsstað göngu og tekur hver ganga um 2 klst. Gengið er í fjörunni á klettum eða steinum en til baka eftir göngustígum ofan við fjöruna og aftur að bílunum. Göngu lýkur ávallt við upphafsstað.

Góður undirbúningur er ávísun á öruggari og skemmtilegri göngu. Í göngurnar er gott að hafa með sér nestisbita og vökva, skjólgóðan göngu- eða íþróttafatnað og vera í léttum gönguskóm eða íþróttaskóm.

Allir velkomnir og þátttaka er ókeypis.

Hlökkum til að sjá þig!