Frá og með 15. apríl má ekki aka á negldum dekkjum. Því er ekki seinna að vænna fyrir þá sem þurfa að skipta að huga að því hvaða dekk á að nota í sumar. Hjólbarðarnir eru eini snertiflötur bílsins við veginn og ræðst stöðugleiki og hemlunarvegalengd að stóru leiti af þeim. Dekkin eru einn mikilvægasti öryggisþáttur hvers bíls geta skipt sköpum þegar á reynir.

Mynstur sumardekkja á að vera a.m.k. 1,6 mm djúpt. Það er ekki mikið og til að mynda er mynstursdýpt nýrra dekkja yfirleitt a.m.k. 9 mm. Dekkin mega ekki vera misslitin og þurfa að vera sömu gerðar. Þótt mörgum finnist dekk dýr þá er gríðarlega mikilvægt að vanda valið og skipta um ef þau uppfylla ekki þær kröfur sem gerðar eru. Á skrifstofum VÍS er hægt að nálgast dekkjadýptarmæli til að átta sig á hversu slitin dekkin eru. Einnig er hægt að nota t.d. krónupening og ef dýptin nær aðeins að stirtlu (fyrir framan sporðinn) þorsksins þá er mynstrið of grunnt.

IMG_4390.JPG
Mynstur sumardekkja á að vera a.m.k. 1,6 mm djúpt.

Hugum að öryggi okkar og annarra í umferðinni. Ökum alltaf á góðum dekkjum og gætum að réttum loftþrýstingi sem hefur bæði áhrif á öryggi og eyðslu bílsins. Virðum hámarkshraða og tryggjum að allir í bílnum noti viðeigandi öryggisbúnaði.