Í ávarpi sínu á aðalfundi VÍS í dag fjallaði Herdís Dröfn Fjeldsted, stjórnarformaður félagsins, meðal annars um breytingartillögu stjórnar um arðgreiðslur vegna ársins 2015. Hún fór yfir fjölmiðlaumræðu sem varð í kjölfar fyrri tillögu sem hún sagði litast af vantrausti í garð atvinnulífsins sem stjórn félagsins hefði vanmetið og þyrfti að læra af. Það væri verkefni viðskiptalífsins, stjórnmála og hagsmunaaðila að vinna að því að endurvinna traust og trúnað.

Herdís sagði almenna reglu þá að þeir fjármunir sem bundnir eru í hlutafélögum og nýtast ekki í rekstri þeirra séu greiddir til hluthafa.

„Breytingartillaga stjórnar felur í sér frávik frá þeirri reglu að heilbrigðast sé fyrir efnahags- og atvinnulíf að þeir fjármunir sem nýtast ekki til starfsemi hlutafélaga séu greiddir út til hluthafa sem finni þeim sjálfir farveg.“

Hún bætti við að breytingartillaga stjórnar tæki mið af því að í ljósi umræðunnar sé nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar og verja orðspor félagsins.

Þá fjallaði Herdís um útgáfu VÍS á víkjandi skuldabréfum. „Víkjandi skuldabréf eru eðlilegur þáttur í fjármagnsskipan félaga. Hlutafé er dýrasta fjármögnun hlutafélaga vegna þess að hún felur í sér mestu áhættuna fyrir þá aðila sem leggja til fjármagnið þ.e. hluthafana. Hluthafar fá ávöxtun á fjármagn sitt tilbaka í formi arðgreiðslna, endurkaupa eða með því að selja hlutabréfin sín.

Víkjandi skuldabréf sem uppfylla ákveðin skilyrði eru í eðli sínu mjög lík hlutafé og teljast til gjaldþols vátryggingafélaga. Gjaldþol er samtala viðurkenndra gjaldþolsliða, sem segja má að sé annað nafn yfir eigið fé. Þau standa framar hlutafé ef félagið getur ekki gert upp við kröfuhafa sína, en á móti er hægt að fresta vaxtagreiðslum og ennfremur er eigendum skuldabréfanna með öllu óheimilt að taka veð í eignum félagsins. Ef félagið fer í þrot þarf fyrst að gera upp vátryggingaskuld og greiða öllum kröfuhöfum áður en eigendur víkjandi skuldabréfa og síðan hluthafar fá greitt. Víkjandi skuldabréf liggja því á milli hefðbundinna skuldabréfa og hlutafjár.

Markmið félagsins með útgáfu víkjandi skuldabréfa er að stilla af fjármagnsskipan félagsins með sem hagkvæmustum hætti.“

Hér má lesa ávarpið í heild sinni