Nú þegar ein stærsta ferðahelgi ársins fer í hönd er full ástæða til að staldra við og huga að því hvort ástæða sé til að breyta einhverju í eigin fari til að auka öryggi sitt og sinna. Flestir sem látast af slysförum látast í umferðarslysum. Ef litið er rúmlega 40 ár aftur í tímann þá hafa tæplega 1.000 einstaklingar látist í umferðarslysum á þeim tíma.

Of mikill hraði, ölvun, skortur á athygli og þreyta eru þættir sem tengjast mjög orsökum umferðarslysa, þættir sem allir eru í höndum ökumanns. Bílbeltaleysi eykur síðan líkur á alvarlegum áverkum ef slys verður. Á árunum 2000 til 2010 er talið að 49 einstaklingar hefðu lifað slysið af hefðu þeir notað bílbelti. Þrátt fyrir það ekur um tíundi hver ökumaður á höfuðborgarsvæðinu án bílbeltis.

Staldraðu við

- láttu vita af ferðum þínum

- vertu viss um að bíllinn sé í lagi og dekkin góð

- festu niður farangur

- tryggðu góða sýn út úr bílnum

- tryggðu öryggi eftirvagns ef hann er með í för

- tryggðu að allir í bílnum noti bílbelti

- virtu hámarkshraða og aktu miðað við aðstæður

- hafðu nægt bil á milli bíla

- taktu ekki framúr nema aðstæður séu öruggar

- aktu ekki undir áhrifum áfengis eða vímuefna

Á heimasíðu VÍS er að finna mikinn fróðleik sem snýr að umferðaröryggi sem vert er að kynna sér með það að markmiði að auka öryggið.

Með ósk um örugga og farsæla ferðahelgi
starfsfólk VÍS