Hoppa yfir valmynd

Ágreiningsmál

Það kemur fyrir að vátryggður og/eða vátryggingartaki og VÍS eru ekki sammála um hvort bæta eigi tjón eða ekki. Ef viðkomandi sættir sig ekki við forsendur VÍS fyrir höfnun bótaréttar eða úrskurð um sakarskiptingu er hægt að leita til eftirfarandi utanaðkomandi aðila:

Tjónanefnd vátryggingafélaganna

Í Tjónanefnd sitja fulltrúar fjögurra vátryggingafélaga. Nefndin fundar hvern þriðjudag og er málsmeðferðin aðilum að kostnaðarlausu. Tjónanefnd gefur álit um sök og sakarskiptingu vegna tjóns af völdum ökutækja, sé ágreiningur um þessi atriði í tengslum við ákvörðun bótaskyldu úr lögboðnum ökutækjatryggingum. Önnur ágreiningsmál er mögulegt að leggja fyrir Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum en nánari upplýsingar um nefndina má sjá hér að neðan. Tjónanefnd fjallar ekki um ágreining er snertir fjárhæð bóta. Ekki er notað sérstakt eyðublað við málskot til Tjónanefndar. Starfsmenn VÍS veita frekari leiðbeiningar um málskot til nefndarinnar.

Ef málsaðili unir ekki niðurstöðu Tjónanefndar er hægt að skjóta henni til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum

Úrskurðarnefndin starfar samkvæmt samkomulagi Fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Neytendasamtakanna og Samtaka fjármálafyrirtækja. Í nefndinni sitja þrír lögfræðingar sem valdir eru af hverjum framangreindra aðila. Sérstakt málskotsgjald þarf að greiða fyrir málskot til nefndarinnar en gjaldið er endurgreitt ef málið fellur að hluta eða öllu leyti málskotsaðila í hag.

Málskotsgjald er eftirfarandi:

  • Fyrir einstakling utan atvinnurekstrar kr. 10.000.
  • Fyrir einstakling í atvinnurekstri kr. 25.000.
  • Fyrir lögaðila kr. 50.000.

Skila þarf málskoti á sérstöku eyðublaði. Hægt er að senda málskotið á tryggingar@nefndir.is eða afhenda það á skrifstofu nefndarinnar að Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík. Starfsmenn VÍS leiðbeina og aðstoða við málskot til nefndarinnar.

Nefndin fjallar um ágreining varðandi bótaskyldu, þ.m.t. sök og sakarskiptingu milli neytenda og vátryggingafélags, sem starfsleyfi hefur hér á landi. Neytanda (viðskiptavini VÍS) er heimilt að skjóta til nefndarinnar ágreiningi um fjárhæðir vegna vátryggingarsamnings milli hans og félagsins, enda nemi ágreiningurinn að lágmarki kr. 25.000 og að hámarki kr. 5.000.000. Jafnframt úrskurðar nefndin um ágreining, sem varðar ákvæði laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. Nefndin fjallar ekki um:

  • Bótafjárhæðir vegna ábyrgðar-og starfsábyrgðartrygginga nema með sérstöku samþykki málsaðila.
  • Ágreining sem samkvæmt lögum heyrir undir stjórnvöld.
  • Kröfu málskotsaðila sem ekki verður metin til fjár eða fellur ekki innan þeirra fjárhæðarmarka sem tilgreind eru í 3. gr. liggi ekki fyrir samþykki varnaraðila.
  • Ágreiningsmál sem eru til meðferðar almennra dómstóla eða gerðardóms, nema ákvæði 3. og 4. mgr. 13. gr. laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019, eigi við.
  • Ágreiningsmál sem eru til meðferðar hjá öðrum lögbundnum eða viðurkenndum úrskurðaraðila sem hefur verið skráður og tilkynntur skv. 1. mgr. 12. gr. laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019.
  • Ágreining sem heyrir ekki undir starfssvið nefndarinnar.
  • Ágreiningsmál sem heyrir undir eða er til meðferðar hjá erlendum úrskurðaraðila sem er á skrá yfir tilkynnta úrskurðaraðila í deilumálum utan dómstóla á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019.
  • Mál sem eru það óljós, illa upplýst eða kröfur aðila svo óskýrar að þau eru ekki tæk til úrskurðar.
  • Mál sem eru það flókin eða yfirgripsmikil að meðhöndlun máls hamli skilvirkni nefndarinnar.
  • Kröfu málskotsaðila um málskostnað eða annan kostnað málskotsaðila sem leiðir af málskoti.

Nefndin ákveður hvort ágreiningur aðila heyrir undir hana og vísar frá þeim málum sem hún telur ekki falla undir hennar starfssvið.

Nefndin skal úrskurða innan 30 daga frá þeim degi er öll gögn máls hafa borist. Nú er mál mjög flókið og er þá unnt að framlengja frestinn um allt að 90 daga sé ástæða til með tilkynningu til aðila máls. Úrskurðir nefndarinnar eru bindandi fyrir viðkomandi vátryggingafélag, nema að félagið tilkynni málskotsaðilanum og nefndinni sannanlega innan fjögurra vikna frá því það fékk úrskurð í hendur, að það muni ekki hlíta honum.

Úrskurður nefndarinnar hindrar ekki að dómstólar fjalli um málið á síðari stigum, þ.e. frjálst er að höfða mál fyrir dómi.

Dómstólar

Það er öllum frjálst að leita til dómstóla ef menn una ekki niðurstöðu félagsins um bótaskyldu þess, úrskurði Tjónanefndar eða úrskurði Úrskurðarnefndar.