Hjólreiðar
Hjólreiðar eru góður og heilbrigður ferðamáti sem ávallt fleiri og fleiri nota. Öruggast er að við notum stíga þar sem þeir eru til staðar en alvarlegustu hjólreiðaslysin verða þegar hjól og vélknúin ökutæki lenda saman.

Rétt stilltur hjálmur er málið
Samkvæmt erlendri slysatölfræði eru 75% banaslysa hjá hjólreiðafólki vegna höfuðáverka. Reiðhjólahjálmur veitir vörn og dregur úr líkum á alvarlegum höfuðáverkum og er mikilvægur öllu hjólreiðafólki. Rannsóknir sýna að hann minnkar líkur á höfuðáverkum um 69%. Ef skoðaðir eru alvarlegir höfuðáverkar, þá er talið að hjálmur geti komið í veg fyrir 79% þeirra. Til að hjálmur veiti fulla vörn þarf hann að vera heill, ekki of gamall, af réttri stærð og sitja rétt á höfði viðkomandi. Eyrað á að vera í miðju V forminu og einn til tveir fingur komast undir hökubandið.
Hjólað um fjöll og firnindi
Það eru margir búnir að átta sig á því hvað mikið frelsi felst í því að nota hjól sem ferðamáta. Hægt að fara t.d. um hálendið og upp á fjöll svo fremri sem stígar eða troðningar eru til staðar en aldrei má hjóla á ósnortnu landi og skilja eftir sig för. Innanbæjar eru stígar málið þar sem þeir eru en ef hjólað er á götunni er gríðarlega mikilvægt að huga vel að sýnileika sínum.
Hjólið má ekki klikka
Huga þarf að ástandi hjólsins eins og annarra farartækja. Bremsur, gírar og dekk verða að vera ofarlega á listanum þar. Eins skiptir gerð hjóls máli allt eftir því hvernig hjólreiðar á að stunda. Meirihluti þeirra sem fara um á hjólum nota þau aðallega þegar færð er góð en ekki í snjó og hálku. Þeir sem hjóla allan ársins hring fer hinsvegar fjölgandi og eru góð vetrardekk nauðsynleg við þær aðstæður.
Sýnileiki skiptir sköpun
Mikilvægt er að hjólreiðamenn velji fatnað sem er áberandi í umferðinni eða noti vesti í skærum lit til að tryggja sýnileika sinn. Gul glitaugu eiga að vera á gjörð hjólsins, hvítt glitauga að framan og rautt að aftan. Þegar farið er að skyggja þarf svo að nota ljós, bæði að framan og aftan.