lock search
lock search

Hesturinn

Öryggi í umgengni við hesta snýst að stórum hluta um að gera sér grein fyrir því hvernig hestar bregðast við ólíkum aðstæðum. Það er meginmunur á viðbrögðum manna og hesta. Um leið og maður gerir sér grein fyrir því hvernig hestur bregst við eru meiri líkur á því að koma megi í veg fyrir slys.

Hjarðeðli
Hestar eru hjarðdýr og vilja vera saman í hóp. Í hrossahópi er virðingarstigi sem hrossin raðast í þar sem einn hesturinn fer með leiðtogahlutverkið. Hópurinn skiptir með sér verkum, t.d. við að vakta umhverfið fyrir hættum. Það er afar mikilvægt að maðurinn komi sér í þann virðingarsess gagnvart hrossum sínum að þau treysti honum og meðtaki hann sem leiðtoga. Hestur sem hvorki treystir né virðir eiganda sinn sem leiðtoga fer sjálfur með leiðtogahlutverkið. Þegar svo háttar til aukast hættur í samskiptum manna og hesta til muna. Forsenda þess að maður geti orðið leiðtogi hests er að hesturinn treysti manninum fyrir hlutverkinu. Hesturinn verður að fá forsendur til þess að hætta að líta á manninn sem ógn og meðtaka hann sem vin og leiðtoga.

Flóttadýr
Flótti er hestum eðlislægur, hans fyrsta svar og besta vörn við hættum. Flóttaeðlið hverfur ekki þótt við ræktum hestinn kynslóð fram af kynslóð og ölum hann upp í „öruggu“ umhverfi. Ef hætta steðjar að byrjar hestur ekki á því að meta aðstæður og bregðast svo við þeim, hann hleypur „eins og hann eigi lífið að leysa“.

Hross treysta á fætur sína til flótta. Ótömdum hestum finnst óþægilegt að láta strjúka á sér fæturna og vilja ekki að maðurinn taki þá upp. Þeir þurfa að læra að treysta manninum áður en þeir veita færi á því.

Ef hestur getur valið þá flýr hann hættur. Að berja og bíta frá sér eru lokaúrræði hrossa sem þau grípa til séu öll sund lokuð. Hesturinn lítur á manninn sem rándýr þar til maðurinn sannfærir hann um annað. Öll hegðun mannsins í návist hrossins skiptir því miklu máli.

Hestar beita ekki rökhugsun. Með því að læra að skilja og meta umhverfið eins og hestur gerir, eiga hestamenn betri möguleika á því að koma í veg fyrir að hættulegar aðstæður skapist og að geta brugðist rétt við ef það gerist.

 • Lærið að „lesa“ hestinn. Grundvallaratriði er að þekkja og skilja líkamstjáningu hrossa.
 • Notið einfaldar og skýrar bendingar. Verið samkvæm sjálfum ykkur, gefið hverja ábendingu alltaf á sama hátt.
 • Umbunið hestinum fyrir rétt viðbrögð.
 • Hestar lesa ekki aðeins ábendingar sem maðurinn gefur heldur túlka þeir alla líkamstjáningu hans. Maðurinn verður að vita hvaða skilaboð hann gefur með líkamstjáningu sinni og ábendingum.
 • Verið vinaleg, ákveðin og róleg. Þolinmæði er lykilorð í allri umgengni við hesta.

Tjáning hesta
Tungumál hrossa er í formi líkamstjáningar sem afar mikilvægt er að læra að þekkja til að geta metið hugarástand þeirra. Með tímanum lærir maður að túlka flókna líkamstjáningu hesta, þó að flestum ætti að verða strax tamt að átta sig á því hvort hestur er t.d. glaður eða reiður, óhræddur eða hræddur. Ýmsa tjáningu er hægt að þekkja af eyrnastöðu og augum.

 • Glaður og forvitinn beinast eyrun fram á við.
 • Reiður og pirraður leggjast eyrun þétt aftur (ef annað eyrað vísar aftur er það þó oftast merki þess að hestur sé að hlusta).
 • Hestur í hvíld og slakur vísa eyrun aðeins til hliðar.
 • Hræddur hestur þá er hvítan í augum oft sýnileg. Hesturinn spennist upp, reisir höfuð og háls eins og hann frekast getur og eyrun hreyfast í allar áttir.

Skynfæri og minni hesta

 • Hestar nota heyrnina m.a. til að hlusta eftir hættum. Þeir hafa mjög næma heyrn og skynja hljóð úr mikilli fjarlægð (líkt og hundar). Eyrun eru afar hreyfanleg og þannig gerð að þeir ná að skynja hljóð úr öllum áttum. Hestar eru viðkvæmir fyrir mismunandi tónhæð og gera greinarmun á reiðilegum og glaðværum röddum. Hestar eru mjög næmir fyrir hátíðnihljóðum. Ekki róa hestinn þinn með því að sussa á hann. Hestar heyra þó lágtíðnihljóð verr en mannfólkið og átta sig t.d. ekki á því ef hjólandi maður nálgast aftan frá fyrr en frekar seint og bregðast þá oft við með flótta.
 • Staðsetning augnanna gerir hestum kleift að sjá hluti fyrir framan sig, aftan og til hliðanna. Blindir blettir eru rétt fyrir framan (~0–2 m) og rétt fyrir aftan (~0–2 m) hestinn. Hestar sjá liti en ekki alla liti, þeir sjá betur í myrkri en maðurinn og þeir eru lengur að venjast breytingum á ljósi. Hestar nota sjónina til að skynja hreyfingar í umhverfinu og bregðast oft við þeim áður en þeir átta sig á því hvað er að hreyfast.
 • Hestar eru mjög næmir fyrir snertingu. Þeir finna fyrir lítilli flugu sem sest á líkama þeirra. Snerting við hest þarf að vera fumlaus en næm. Hestar hafa persónulegt svæði í kringum sig, þangað hleypa þeir aðeins þeim sem þeir treysta. Við nálgun hrossa þarf að taka tillit til þessa, ekki nálgast þau of hratt eða hranalega. Líkamstjáningin má ekki vera ógnandi, en heldur ekki of hikandi.
 • Hestar eru mjög minnugir og meðvitaðir um breytingar í umhverfi sínu. Ef eitthvað kemur upp við vissar aðstæður, á ákveðnum stað, muna hestar það lengi á eftir og geta orðið hræddir eða órólegir á sömu stöðum eða við sömu aðstæður.

Allt í umhverfi hestsins getur haft áhrif á hann
Ef hestur er spenntur, hræddur eða hagar sér öðruvísi en hann á að sér, t.d. rýkur eða hrekkir, getur margt annað en óþekkt legið að baki. Allt umhverfið, þar með talið veðrið, hefur áhrif á hegðun hrossa. Hestar geta verið viðkvæmir og spennst upp í roki, svo ekki sé minnst á þá hættu að lausir hlutir fjúki og fæli hestinn.

Líkamsástand hesta

Ef hestur finnur til getur hann brugðist ókvæða við. Leitaðu til dýralæknis þegar hesturinn er tekinn á hús og láttu hann kanna almennt heilsufar hestsins. Dýralæknir getur fundið út hvort hesturinn er með hlandstein, tanngadd, sár í munni o.fl. Fóðrun þarf að vera í samræmi við þarfir, líkamsástand og notkun hrossins. Allir hestamenn ættu að hafa lágmarksþekkingu í fóðrun hrossa. Hverjar fóðurþarfir þeirra eru (orka, prótín, vítamín, steinefni og snefilefni), hvert innihald þess fóðurs sem gefið er og hvernig það mætir fóðurþörf hvers hests. Fáið fagmann til að meta gæði heys og mæla fóðurþörf.

Ekki fóðra hestinn umfram þarfir hans á orku- og prótínríku fóðri (fóðurbæti). Hestum á að gefa 2–3 á dag með jöfnu millibili. Gerið ráð fyrir því að hestur sem hefur staðið ónotaður á gjöf þurfi útrás fyrir uppsafnaða orku. Gott getur verið að hringteyma hestinn í nokkrar mínútur áður en farið er á bak. Það losar um spennu.

Reiðtygi og hnakkur þurfa að passa og henta bæði hesti og knapa. Ef hnakkur passar illa getur hann meitt hest í baki. Hugið að ástandi leðurs. Hvort það það sé mjúkt og sterkt, eða sprungið, þurrt og þunnslitið (t.d. móttök fyrir gjarðir og ístaðsólar). Ef mél passa ekki geta þau valdið særindum í munni hests. Kannið ástand reiðtygja áður en þau eru tekin í notkun. Gangið úr skugga um að reiðtygi passi og henti þeim hesti sem á að nota þau á og að þau séu stillt og notuð á réttan hátt.

Ábyrgð knapa
Ef hestur er rétt taminn ættu viðbrögð hans að vera nokkuð fyrirsjáanleg. Hegðun hestsins eru viðbrögð við áreiti frá öllu umhverfinu, þar með töldum knapa. Knapinn þarf að vera meðvitaður um hvaða skilaboð hann gefur hesti sínum. Oft er hægt að leita skýringa við slæmri hegðun og óviðeigandi viðbrögðum hestsins hjá knapanum sjálfum. Það er ekki hestsins að ráða úr þeim ábendingum sem knapinn gefur. Það er á ábyrgð knapans að veita réttar ábendingar með réttri líkamstjáningu. Skilaboð sem eru í senn einföld og skýr eru best. Samskipti manns og hests verða að miðast út frá forsendum hesta.

Að kaupa hest
 Allir sem hyggjast kaupa hest og stunda hestamennsku þurfa að viða að sér nauðsynlegri kunnáttu í atferli hrossa, reiðmennsku, almennri umgengni og umhirðu hesta. Enn fremur þarf að finna hest við hæfi knapa, t.d. er hentugast fyrir byrjendur að kaupa vel taminn fullorðinn hest. Gott er að hafa hlutlausan aðila með í ráðum sem veit hvað hentar viðkomandi knapa miðað við hæfni hans og getur metið gæði og hentugleika hrossins til síns hlutskiptis.

Hestar eru dýr með mikla aðlögunarhæfni. Þeir þurfa góðan leiðtoga sem þeir geta treyst. Fái þeir ekki tilhlýðilega stjórn frá knapa sínum taka þeir yfir leiðtogahlutverkið. Það er því eindregið mælt með því, sér í lagi fyrir þá sem eru að byrja í hestamennsku með nýfengnum hesti, að skrá sig á námskeið. Þar fá hestur og knapi tækifæri að kynnast, aðlagast og skipta hlutverkum á réttan hátt undir styrkri leiðsögn reiðkennara. Þannig verður hestamennskan án efa skemmtilegri og öruggari.

Gátlistar

Fá tilboð
mail Hafa samband chat Netspjall
mail chat
close

Tryggingar

Niðurstöður

Skjöl

Niðurstöður

Annað

Niðurstöður

Fréttir

Niðurstöður

News search result

Leit

Niðurstöður

Ææ en leiðinlegt!

Við fundum því miður ekki ""

Athugaðu hvort öll leitarorðin eru rétt skrifuð, annars geturðu prófað að víkka leitina með öðrum eða almennari leitarorðum.

Ef allt um þrýtur, endilega hafðu samband

close Loka
Hafðu samband
bell

Getum við aðstoðað?

Hafðu sam­band og við leys­um málið.

chat

Netspjallið

Þjónustufulltrúar okkar svara frá 09:00 til 16:00 mánudaga til fimmtudaga og frá 09:00 til 15:30 á föstudögum.

Opna netspjall
coffee

Komdu í heimsókn

Kíktu í heim­sókn og starfs­fólkið okk­ar tek­ur vel á móti þér.

Sjá þjónustuskrifstofur
close Loka

Netspjall VÍS

Við hvern viltu spjalla?
Vinsamlegast sendu ekki lykilorð, kortanúmer eða bankaupplýsingar í gegnum netspjallið. Þú getur skráð bankaupplýsingarnar þínar á þjónustusvæði þínu, Mitt VÍS
Öll samskipti eru vistuð í gagnagrunni. Misnotkun varðar við lög.