lock search
lock search

COVID-19

Mikið er fjallað um COVID-19 veiruna þessa dagana. Bæði út frá ferðalögum og hættuna á að smitast hér heima. Við höfum tekið saman helstu upplýsingar um COVID-19 veiruna og ferðatryggingar ásamt forvörnum sem aðstoða þig og þína nánustu við að vera upplýst og takast á við óvissuna sem hún skapar. Það er margt sem við getum gert til að koma í veg fyrir smit og mjög mikilvægt að við leggjum okkur öll fram við að draga úr útbreiðslu veirunnar. Við hvetjum þig því til að kynna þér upplýsingarnar.

Áttu bókaða ferð til útlanda?

Til að ferðakostnaður þ.e. flug­far­gjald og gi­sti­kostnaður sé bættur þá verða stjórn­völd hér á landi að hafa sett á fyrirmæli um op­in­bera sótt­kví eða að um sé að ræða önn­ur op­in­ber höft vegna far­sótt­ar sem leiða til þess að ferðamenn komist ekki í fyrirhugaða ferð. Ef þú ert á ferðalagi eða í ferðahug og finn­ur ekki svör við þeim spurn­ing­um sem kynnu að vakna, ekki hika við að hafa sam­band og við ger­um okk­ar besta til að finna út úr því með þér.

 • Á ég rétt til bóta úr forfalla- og ferðatryggingum vegna COVID-19?
  Við bendum á að viðskiptavinir þurfa ávallt að sækja rétt sinn til endurgreiðslu til ferðaskrifstofu, flugfélags eða gistisala áður en krafa er gerð um bætur í ferða- og forfallatryggingu. Ef flugi er aflýst stofnast réttur til endurgreiðslu hjá flugfélögum skv. EES-reglum. Við bendum á að ef hætt er við flugferð er ávallt réttur til endurgreiðslu á flugvallarsköttum og öðrum gjöldum. Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Samgöngustofu. Ef ferðaskrifstofa aflýsir pakkaferð eiga viðskiptavinir rétt á fullri endurgreiðslu ferðar samkvæmt lögum um pakkaferðir. Ef þú sjálf/sjálfur ákveður að hætta er við bókaða pakkaferð hjá ferðaskrifstofu kann að vera fyrir hendi réttur til endurgreiðslu. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Neytendastofu. Við viljum einnig benda á að mörg flugfélög eru nú að bjóða viðskiptavinum sínum upp á að breyta bókunardagsetningum ferðar að kostnaðarlausu eða inneign sem hægt er nýta síðar.

 • Ég hygg á ferðalög á næst­unni. Er mér óhætt að bóka ferð?
  Hafa ber í huga að ef far­bann eða önn­ur op­in­ber höft eru í gildi á þeim tíma sem ferð er bókuð, og eru enn í gildi á brott­far­ar­degi, kann það að hafa áhrif á bóta­rétt þinn úr for­falla­trygg­ingu. Við mælum með að fólk fari eftir ráðleggingum Sóttvarnarlæknis til ferðamanna.

 • Hvað er op­in­ber sótt­kví?
  Op­in­ber sótt­kví er ein­angr­un sem stjórn­völd á Íslandi fyr­ir­skipa vegna smit­hættu. Dæmi um slíkt væri að yf­ir­völd á Íslandi gæfu út fyr­ir­mæli um að landið eða hlut­ar þess séu í sótt­kví eða settu bann við því að ferðast sé frá land­inu sem leiða til þess að þú kemst ekki í fyrirhugaða ferð. Til þess að for­föll í fyr­ir­hugað ferðalag sé bætt úr ferðatrygg­ingu hjá VÍS þarf að liggja fyr­ir að um sé að ræða op­in­bera sótt­kví eða önn­ur op­in­ber höft sem rekja má til far­sótt­ar­inn­ar.

 • Hvað eru op­in­ber höft?
  Opinber höft eru fyrirmæli stjórnvalda í heimalandi, eða á áfangastað, sem leiða til þess að þú kemst ekki í fyrirhugaða ferð. Dæmi um opinber höft geta verið lokun landamæra eða önnur yfirlýst ferðabönn sem leiða til þess að ferðamenn komast ekki á áfangastað. Við viljum benda á að upplýsingar um ferðabönn eða önnur opinber höft á landsvæðum geta breyst dag frá degi og hvetjum við þig til að fylgjast með nýjustu upplýsingum um þau.

 • Flug­inu mínu var af­lýst. Get ég sótt bæt­ur í for­falla­trygg­ingu mína?
  Ef flugfélag aflýsir fyrirhuguðu flugi átt þú rétt á fullri endurgreiðslu farmiða skv. EES-reglum. Við bendum þér á að hafa samband við flugfélagið þitt. 

 • Ég á bókað flug og gist­ingu á svæði þar sem stjórn­völd hafa gefið það út að ferðamenn inn í landið þurfi að fara í sótt­kví. Fæ ég tjón mitt bætt?
  Nei því miður. Við bendum á að mörg flugfélög og ferðaskrifstofur bjóða nú upp á þann kost að breyta bókunardagsetningum ferðar, viðskiptavinum að kostnaðarlausu.

 • Ég á bókaða ferð en skvæmt upplýsingum frá Sóttvarnarlækni þarf ég að fara í 14 daga sóttkví við heimkomu. Á ég rétt á bótum úr forfallatryggingu ef ég hætti við ferð vegna þessa?
  Nei því miður. Við bendum á að mörg flugfélög og ferðaskrifstofur bjóða nú upp á þann kost að breyta bókunardagsetningum ferðar, viðskiptavinum að kostnaðarlausu.

 • Ég á bókað flug er­lend­is en er í sótt­kví þegar flug mitt er. Fæ ég tjón mitt bætt?
  Já, ef starfandi læknir hefur fyrirskipað sóttkví hjá þér á þeim tíma þegar flug þitt er þá átt þú rétt úr forfallatryggingu. VÍS greiðir einungis þann hluta sem ekki fékkst endurgreiddur frá ferðasala og/eða gistisala. Þú þarft því alltaf að leita fyrst til flugfélagsins, ferðaskrifstofunnar og/eða gistisalans. Ef þú hefur ekki fengið allan útlagðan kostnað endurgreiddan þá tilkynnir þú tjónið á vis.is. Þeirri umsókn þarf að fylgja staðfesting læknis á sóttkví, bókunarstaðfesting flugfélags ásamt upplýsingum um endurgreiðslurétt, bókunarstaðfesting ferðaskrifstofu og/eða gistisala ásamt upplýsingum um endurgreiðslurétt.

 • Ég á bókaða ferð frá Íslandi en yfirvöld á áfangastað hafa gefið út ferðabann til viðkomandi svæðis. Fæ ég ferð mína bætta?
  Ef fluginu þínu hefur verið aflýst átt þú rétt á endurgreiðslu ferðar hjá flugfélagi og bendum við þér á að hafa samband þangað. Ef opinber höft leiða til þess að þú kemst ekki í ferð á brottfarardegi greiðir VÍS þann hluta sem ekki fékkst end­ur­greidd­ur frá ferðasala og/​eða gistisala. Þú þarft því alltaf að leita fyrst til flug­fé­lags­ins, ferðaskrif­stof­unn­ar og/​eða gistisal­ans. Ef þú hef­ur ekki fengið all­an útlagðan kostnað end­ur­greidd­an þá til­kynn­ir þú tjónið á vis.is. Þeirri um­sókn þarf að fylgja staðfest­ing frá flug­fé­lagi, ferðaskrif­stofu og/​eða gistisala um rétt á end­ur­greiðslu. Slík staðfest­ing get­ur verið á formi tölvu­póst­ar eða kvitt­un­ar.  Við vilj­um benda á að upp­lýs­ing­ar um ferðabönn eða önn­ur op­in­ber höft á landsvæðum geta breyst dag frá degi og því hvetj­um við þig til að fylgj­ast með nýj­ustu upp­lýs­ing­um um þau. 

 • Ég á bókað flug og gist­ingu á svæði sem Land­læknisembættið hef­ur lagt til að ein­stak­ling­ar séu ekki að ferðast til að nauðsynja­lausu. Ég vil ekki fara, get ég fengið ferð mína end­ur­greidda?
  Nei því miður, þar sem breyt­ing­ar á ferðatil­hög­un til að koma í veg fyr­ir hugs­an­legt tjón fell­ur ekki und­ir bóta­svið ferða- og korta­trygg­inga nema að stjórn­völd á viðkom­andi svæði hafa gefið út fyr­ir­mæli um op­in­ber höft vegna COVID-19 sem leiða til þess að þú kemst ekki í ferð þína.

 • Ég á bókaða ferð er­lend­is. Ég er með und­ir­liggj­andi sjúk­dóm og lækn­ir­inn minn hef­ur gefið út lækn­is­vott­orð þess efn­is að hann mælir gegn því að ég fari í fyr­ir­hugaða ferð vegna COVID-19. Fæ ég ferð mína bætta?
  Nei, því miður. Breyt­ing­ar á ferðatil­hög­un til að koma í veg fyr­ir hugs­an­legt tjón fell­ur ekki und­ir bóta­svið ferðatrygg­inga kred­it­korta og F plús. Til þess að eiga rétt á bót­um úr for­falla­trygg­ingu vegna COVID-19 veirunn­ar þurfa stjórn­völd á viðkom­andi svæði að hafa gefið út fyr­ir­mæli um op­in­ber höft vegna COVID-19. Þó svo trygg­ing­in taka ekki á slík­um at­vik­um þá hvetj­um við þig til að kynna þér vel upp­lýs­ing­ar inni á landla­ekn­ir.is þar sem ein­stak­ling­ar með ákveðin vanda­mál eru í auk­inni hættu á al­var­legri sýk­ingu ef þeir smit­ast af COVID-19. 

 • Ég á bókaða ferð, flug og gist­ingu, á viðburð s.s. ráðstefnu, fót­bolta­leik eða tón­leika. Sá sem held­ur viðburðinn hef­ur hætt við hann vegna COVID-19. Fæ ég ferð mína bætta?
  Nei, því miður eru slík til­vik ekki bætt úr ferðatrygg­ingu kred­it­korta og F plús. Til þess að eiga rétt á bót­um úr for­falla­trygg­ingu vegna COVID-19 veirunn­ar þurfa stjórn­völd á viðkom­andi svæði að hafa gefið út  fyr­ir­mæli um op­in­ber höft vegna COVID-19, þ.e. bann við því að ferðast sé til svæðis­ins. Við hvetj­um þig til að at­huga með mögu­leika á end­ur­greiðslu miða á viðburðinn hjá viðburðahald­ara. 

 • Ég á bókaða ferð, flug og gist­ingu, á viðburð s.s. ráðstefnu, fót­bolta­leik eða tón­leika. Stjórn­völd hafa sett sam­komu­bann vegna COVID-19 og þess vegna hef­ur verið hætt við viðburðinn. Fæ ég ferð mína bætta?
  Nei, því miður eru slík til­vik ekki bætt úr ferðatrygg­ingu kred­it­korta og F plús. Til þess að eiga rétt á bót­um úr for­falla­trygg­ingu vegna COVID-19 veirunn­ar þurfa stjórn­völd á viðkom­andi svæði að hafa gefið út fyr­ir­mæli um op­in­ber höft vegna COVID-19, þ.e. bann við því að ferðast sé til svæðis­ins. Ekki er nægi­legt að um sé að ræða sam­komu­bann á viðburði held­ur þarf um ferðabann að vera ræða á viðkom­andi svæði. Við hvetj­um þig til að at­huga með mögu­leika á end­ur­greiðslu miða á viðburðinn hjá viðburðahald­ara.

 • Á ég kost á að fá ferðakostnað, flug og gist­ingu, end­ur­greidd­an ef hót­el þar sem ég á bókaða gist­ingu er lokað vegna opinberra hafta?
  Já, ef hótelið er lokað vegna opinberra hafta, s.s. vegna lokunar sem fyrirskipuð er af yfirvöldum. VÍS greiðir einungis þann hluta sem ekki fékkst endurgreiddur frá ferðasala og/eða gistisala. Þú þarft því alltaf að leita fyrst til flugfélagsins, ferðaskrifstofunnar og/eða gistisalans. Ef þú hefur ekki fengið allan útlagðan kostnað endurgreiddan þá tilkynnir þú tjónið á vis.is.

Ertu erlendis?
 • Á ég kost á end­ur­greiðslu ferðar ef ég flýti heim­för vegna COVID-19?
  Nei, því miður þá eru slík tilvik ekki bótaskyld úr ferðatryggingu kreditkorta og F plús. Í slíkum tilfellum hvetjum við þig til að skoða upplýsingar hér að neðan sem við höfum tekið saman og hjálpa þér að forðast smit.
 • Ég greinist með staðfest smit af COVID-19 veirunni á ferðalagi. Hvað geri ég?
  Þér bjóðast bæt­ur úr ferðatrygg­ingu kred­it­korta og F plús vegna læknis- og sjúkrakostnaðar sem fellur til í beinum tengslum við veikindin. Við biðjum þig að hafa sam­band við SOS In­ternati­onal, halda til haga kvitt­un­um fyr­ir út­lögðum kostnaði og skrá viðkom­andi til­vik á vis.is. 
 • Ég dvel á hóteli á Spáni sem mun loka vegna tilmæla yfirvalda um lokun hótela. Ég hyggst stytta ferðina og flýta heimför. Fæ ég aukakostnað bættan úr ferðatryggingu?
  Nei, því miður þá eru slík tilvik ekki bótaskyld úr ferða- eða kortatryggingum hjá VÍS.

Upplýsingar fyrir fyrirtæki
 • Tekur rekstrarstöðvunartrygging á rekstrarstöðvun fyrirtækis sem yrði ef stjórnvöld hér á landi loka landinu þ.e. loka flugvöllum?
  Nei, því miður, þar sem rekstrarstöðvun er eingöngu vegna bruna, vatns og/eða innbrots.

Ýmsar upplýsingar um COVID-19 og ferðalög
 • Hvar get ég fengið upplýsingar um afbókun pakkaferða?
  Á vef Neytendastofu má sá samantekt á réttindum við afpöntun og aflýsingu pakkaferða.

 • Hvar get ég fengið almennar upplýsingar um réttindi flugfarþega?
  Inni á vef Samgöngustofu eru upplýsingar um réttindi flugfarþega og Covid-19.

 • Er hægt að breyta flugi vegna COVID-19 t.d. út frá tíma og áfangastað? 
  Mörg flugfélög t.d. Icelandair, SAS og Lufthansa bjóða upp á þá án þess að greiða þurfi sérstakt breytingargjald.
 • Mjög mikilvægt er að fylgja eftir tilmælum Almannavarna og Landlæknisembættisins. 
 • Landlæknisembættið hefur skilgreint svæði með mikla smithættu og litla smithættu.
 • Landlæknir mælir með því að ferðamenn fari ekki að nauðsynjalausu í ferðalög til skilgreindra áhættusvæða þar sem COVID-19 smit eru útbreidd.
 • Ef komið er heim frá svæðum með mikla smithættu er beðið um 14 daga sóttkví.
 • Ef veikindi koma fram innan 14 daga frá því að verið var á sýktu svæði ber að tilkynna þau í 1700 eða til heilsugæslunnar í gegnum síma.

Forvarnir og COVID-19

Hvað get ég gert til verja mig?

 • Gættu að ítrasta hreinlætis.
 • Þvoðu hendur oft og vel með sápu.
Handþvottur stór.JPG
 • Forðastu að snerta augu, nef og munn með óhreinum höndum.
 • Forðast að snerta hluti sem margir koma við eins og hurðahúna og handrið.
 • Ekki heilsast með faðmlagi eða handabandi.
 • Leitastu við að halda þig í tveggja metra fjarlægð frá fólki.
 • Hóstaðu og hnerraðu í pappír eða í olnbogabót og þvoðu hendur á eftir. Notaðu spritt ef handþvottur er ekki mögulegur.
 • Forðastu samskipti við þá sem eru hóstandi, kvefaðir eða veikir.
 • Virtu tilmæli um ferða- og fjöldasamkomutakmarkanir ef verða.
 • Einstaklingur með staðfesta COVID-19 ætti að nota andlitsmaska (N 95) þar til hann er kominn í einangrun, öðrum til varna. 
 • Þú getur líka skoðað eftirfarandi myndband

 

Hver eru einkenni COVID-19?
Fyrstu einkenni þeirra sem veikjast er ekki ólík kvefpest, til dæmis hiti, þurr hósti, beinverkir, höfuðverkur og þreyta. Þeir sem verða alvarlega veikir geta átt erfitt með öndun og á getur viðkomandi þurft á sjúkrahúsvist að halda.

COVID_19_VIS (002).png

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) telur allt að 14 dagar geti liðið frá því að viðkomandi sýkist þar til einkenni komi fram.

Hversu alvarleg er COVID-19?

 • 81% fá mild einkenni.
 • 14% verða alvarlega veikir.
 • 5% verða lífshættulega veikir.
 • Dánartíðni er óstaðfest en talið um 1-3%

Hvað á ég að gera ef ég finn einkenni?
Ef þú færð kvefeinkenni og hefur verið úti eða í samskiptum við aðila sem voru að koma að utan hringdu í 1700 eða á heilsugæsluna og farðu eftir þeim fyrirmælum sem þú færð þar.

Er til meðferð eða lækning við Kórónaveirunni?
Eins og staðan er núna, þá er meðferðin sú að styðja við líkamsstarfsemi, til dæmis stuðning við öndun, þar til ónæmiskerfinu tekst að vinna bug á veirunni. Hinsvegar er hafin vinna við að finna bóluefni og er vonast til að hægt sé að hefja prófanir á því fyrir lok árs. Spítalar hafa einnig hafið prófanir á lyfjum sem ætlað er að vinna gegn veirunni.

Hversu hratt dreifist veiran?
Þúsundir nýrra sýkinga eru tilkynntar daglega. Hinsvegar er talið að mögulega séu allt að 10 sinnum fleiri sýktir en kemur fram í opinberum tölum. Veirunnar hefur nú orðið vart víða um heim og talin er hætta á heimsfaraldri.

Hvað er heimsfaraldur?
Heimsfaraldur er þegar smitsjúkdómur ógnar mismunandi hlutum heimsins á sama tíma.

Sagt hefur verið að veiran verði ekki til staðar í sumar, er það rétt?
Þar sem kvef og flensa er líklegri til að dreifast á veturna, þá vona sérfræðingar að með sumrinu verði auðveldara að stemma stigu við faraldrinum. Hinsvegar eru dæmi um að veirur af þessum toga hafa birst í heitum löndum. Það er því ekki hægt að ábyrgjast neitt í þeim efnum.

Hvernig segjum við börnum frá kórónaveirunni (COVID-19)?
Útskýrum að kórónaveiran sé ný veira og í sumum löndum hafi margir orðið lasnir. Veiran heitir kórónaveiran af því undir smásjá lítur hún út eins og kóróna.

 • Flestir veikjast vægt.
 • Þegar fólk veikist, eru einkennin eins og flensa: Þurr hósti, hiti, beinverkir og getur orðið óþægilegt að anda.
 • Það eru ekki mörg tilfelli þar sem börn hafa veikst og þegar það hefur gerst, þá veikindin væg.
 • Eldra fólk, sem er með undirliggjandi heilsufarsvandamál, er líklegra til þess að verða veikt.
 • Ef einhver veikist og telur sig hafa smitast af veirunni ætti sá hinn sami að hafa strax samband við lækni og fá aðstoð.
 • Vísindamenn og læknar leita að veirunni og vinna í að koma í veg fyrir hana.
 • Útskýrum að það er margt hægt að gera til að koma í veg fyrir smit:
  • Þvo hendur með sápu og vatni í minnst 20 sekúndur. Þvo hendur alltaf eftir klósettferðir eða þegar búið er að vera á almenningsstöðum eins og leiksvæðum, strætó o.þ.h. Koma sápu og vatni í alla króka og kima beggja handa.
  • Hósta í olnbogann. Þegar maður hnerrar eða hóstar, þá kemst vírusinn út í litlum dropum og með því að hósta í olnbogabótina þá komast droparnir ekki lengra.
  • Útskýrum fyrir þeim að reyna forðast að snerta andlit. Munnur, nef, augu og eyru eru staðirnir þar sem sýklar komast með höndunum.
  • Gott er að benda börnum á að hafa ekki áhyggjur. Margir hjálpast að við að tryggja öryggi þeirra: Læknar, vísindamenn, kennarar, fjölskyldan og margir fleiri.

En mikilvægast af öllu er að þvo hendur!


Sóttkví getur verið góð skemmtun
 • Af hverju er sóttkví?
  Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir smit. Sóttkví er hluti af því. Í sóttkví fara þeir einstaklingar sem hafa mögulega smitast en eru ekki ennþá veikir þ.e. eru einkennalausir. Ekki er víst að allir á heimilinu þurfi að fara í sóttkví. Ef svo er, þá er mælst til þess að þeir sem eru útsettir fyrir smiti dvelji ekki á sama stað og þeir sem eru í sóttkví. Ein lausn á því er nýta sér sumarbústað. Ef ekki er hægt að skipta íbúum heimilisins, þá er mjög mikilvægt að takmarka snertingu, huga mjög vel að hreinlæti og hafa sér svefnrými fyrir þann sem er í sóttkví. Ef þú þarft að fara í sóttkví þá er mikilvægt að taka hana alvarlega. Við hvetjum þig samt til að líta ekki á sóttkví sem fangelsi heldur sem tíma fyrir sjálfan þig. Tíma til að gera þá hluti sem þig hefur alltaf langað til að gera en ekki gefið þér tíma í.

 • Höldum rútínu
  Fjórtán dagar getur hljómað sem heil eilífð þegar þarf að hanga heima. En það þarf alls ekki að vera svo. Haltu rútínunni. Ekki rugla í svefninum. Farðu að sofa og vaknaðu á svipuðum tíma alla dagana. Kannski er þetta tíminn sem gefst til að lesa bókina Why We Sleep? Bókina sem hefur opnað augu almennings fyrir mikilvægi svefns á heilsu, vellíðan og árangur. Er málið að gera áætlun fyrir hvern dag? Hvað á að gera og jafnvel setja sér markmið? Þannig að þessir 14 daga líði ekki án þessi að eitthvað sitji eftir.

 • Vertu Wilson
  Þrátt fyrir að vera í sóttkví, þá þurfum við ekki að hætta öllum samskiptum. Þú verður að hafa í huga að halda hæfilegri fjarlægð frá næsta manni, um 2-3 metra. Við munum mörg eftir Wilson í amerísku sjónvarpsþáttunum Home Improvement. Wilson og Tim Taylor voru aldrei í mikilli nánd við hvorn annan þar sem Wilson stóð í sínum garði og á bakvið grindverk. En það kom ekki í veg fyrir náin samskipti.

 • Pantaðu mat heim
  Að vera í sóttkví þýðir að þú mátt ekki fara út að versla. Ekki einu sinni um miðja nótt. En sem betur fer hefur orðið mikil þróun í heimsendingum á mat. Pítsur hafa auðvitað verið sendar heim til okkar í áratugi en á síðustu misserum hefur verið lítið mál að fá fjölbreyttan mat sendan heim frá matvörubúðum og veitingastöðum. Við bíðum þó enn eftir heimsendum bragðaref. Ef þú vilt fá heimsendan mat frá veitingahúsum þá mælum við með aha.is en ef þú vilt versla í matinn þá mælum við með heimakaup.is eða netto.is. Einnig er hægt að kaupa áskrift að mat eins og hjá Eldum rétt og Einn, tveir og elda. Ekki freistast og detta í pytt óhollustunnar. Njóttu þess frekar að elda góðan og hollan mat.

 • Enga feimni
  Að vera í sóttkví er ekkert feimnismál. Með því uppfyllum við skyldu okkar gagnvart samfélaginu sem kallar á varkárni. Þótt þú sért heilsuhraustur þýðir ekki að fólkið í kringum þig sé það. Segðu vinum og vandamönnum frá stöðunni, þau gætu boðist til þess að aðstoða þig við ýmis konar innkaup.

 • Vinnan
  Margir geta unnið að heiman. Þá er tilvalið að koma sér upp góðri vinnuaðstöðu en ekki kúldrast uppí sófa með tölvuna og auka þar með líkur á stoðkerfisverkjum vegna rangra vinnustellinga.

 • Bíltúr
  Þú mátt ekki vera í návist við aðra þegar þú ert í sóttkví. Nýttu tækifærið og farðu á rúntinn á fallega staði í nálægt höfuðborgarsvæðinu. Mundu, að þú mátt ekki taka upp farþega eða fara í bílalúgu. Þá er tilvalið að skoða íslenska náttúru eins og Þingvelli, Reykjanesið eða Hvalfjörðinn.

 • Líkamsrækt
  Gymmið er ekki valkostur í sóttkví. Búðu til æfingaprógram heima fyrir sem þú ferð eftir daglega. Ekki gleyma leg day!

 • Hvað ef ég bý í fjölbýli?
  Ef þú býrð í fjölbýli þarftu að taka tillit til nágranna þinna. Ef stigagangurinn er með Facebook hóp gæti verið sniðugt að láta vita að þú sért í sóttkví. Að þú munir kalla fram á gang ef þú vilt fara upp eða niður stigann til að komast út eða bara fara með ruslið. Vertu í hönskum þegar þú þarft að snerta hurðarhún eða handrið. Ef þú ert við það að mæta einhverjum í stigaganginum, þarftu að láta viðkomandi vita að þú sért í sóttkví. Þú skalt biðja viðkomandi um að fara til baka til að hleypa þér í gegn.

 • Göngutúr
  Þér er alveg óhætt að fara í göngutúra, það er mikilvægt að fá frískt loft og hreyfa sig reglulega. Haltu bara tveggja metra fjarlægð frá öðrum. Óþarfi samt að vera með prik til að halda fólki í fjarlægð.

 • Eru verkefni heima sem hafa beðið lengi?
  • Eru fataskáparnir fullir af fötum sem eru aldrei notuð og geta nýst einhverjum öðrum?
  • Er krydd eða önnur matvara með síðasta söludegi frá tíunda áratugnum?
  • Er rétti tíminn til að henda málningu á einhverja veggi? Þú getur alltaf beðið einhvern að kaupa það sem þarf.
  • Það er merkilegt hvað ratar í geymsluna. Einn daginn er hún orðin yfirfull og enginn veit almennilega hvað hún geymir.
  • Er viðhald á heimilinu sem hægt er að sinna? Hvað með hurðina sem er alltaf skökk? En vaskurinn sem lekur?
  • Hvað með garðinn? Er eitthvað þar sem þú getur gert eða er snjór yfir öllu?
  • Eru ljósmyndirnar í einum graut? Í mesta lagi flokkaðar eftir ártölum. Eru allar myndirnar þarna, sama hvort þær séu góðar eða vondar?

 • 10 góðar myndir til að horfa á ef þú ert í sóttkví
  Að vera í sóttkví getur verið góð skemmtun. Þessar kvikmyndir geta stytt þér stundirnar milli þess sem þú þrífur herbergið í þriðja skiptið.
  • Groundhog day. Bill Murrey fer á kostum í hlutverki veðurfréttamannsins Phil Connor sem upplifir sama daginn, aftur og aftur. 
  • Home Alone. Hinn ungi Kevin McCallister þarf að hafa ofan af fyrir sér aleinn heima, fyrir tíma iPad, á meðan fjölskyldan fer í frí til Parísar.
  • Panic Room. Jodie Foster dvelur í öryggisklefa. Óþarfi að panikka samt.
  • The Lord of the Rings myndirnar. Ekki nema 11 ½ tíma . Þú hefur nægan tíma.
  • Con Air. Myndin er æsispennandi og skartar engum öðrum en Nicolas Cage sem þarf að kljást við Cyrus the Virus í fangaflugi.
  • Outbreak. Kvikmynd með Dustin Hoffman í aðalhlutverki. Pínu dramatísk.
  • Groundhog day. Bill Murrey fer á kostum í hlutverki veðurfréttamannsins Phil Connor sem upplifir sama daginn aftur og aftur. Mælum með daglegu áhorfi.
  • Her. Joaquin Phoenix lærir að elska stýrikerfi og hafnar mannlegum samskiptum.
  • Rear Window. James Stewart hangir inni og fylgist með fólkinu á móti. Ekki láta grípa þig glóðvolgan við gónið.
  • Bubble boy. Svört kómedía með Jake Gyllenhaal í aðalhlutverki sem þarf að búa í sótthreinsuðu herbergi og ferðast um í kúlu.

 • Lesa góða bók
  Margir eiga bækur sem hafa setið á hakanum, sem planið er að lesa „seinna“. Í sóttkví er gott tækifæri til að dusta rykið af þessum bókum því að „seinna“ er runnið upp. Lestrinum fylgja tveir kostir. Í fyrsta lagi, er lestur góð afþreying en jafnframt fylgir því oft áhugaverður og góður lærdómur. Ef þú ert ekki með bækur heima fyrir, þá er hægt að hlusta á hljóðbækur.

 • Tölvuleikir
  Þeir sem spila tölvuleiki, eins og t.d. Playstation, vita hvernig tíminn getur flogið frá manni þegar maður er að spila. Ef þú hefur aldrei tíma til að spila, þá er tíminn réttur núna. Og fyrir þá sem hafa ekki spilað áður, hvernig væri að prófa?

 • Spil og leikir
  Flestir eiga allskyns spil. Hvort sem það eru venjulegu gömlu plastspilin, borðspil, teningaspil, púsl eða annað. Finndu þessi spil og gefðu þér smá tíma í að kynnast þeim aftur. Og ef allt annað þrýtur, þá er alltaf hægt að byggja spilaturn.

 • Föndur
  Á flestum heimilum eru til verkfæri til að föndra og á Youtube er fjöldinn allur af hugmyndum. Leitaðu að föndurhugmyndum (e. crafting) á Youtube og þú færð fjöldann allan af hugmyndum að föndri sem þú getur leikið þér með.

Okkar skilaboð eru ef við þurfum að vera í sóttkví, virðum hana og leitumst við að njóta. 


Unnið að heiman

Margir vinna heima þessa dagana sem gengur eflaust misvel. Sér í lagi ef börn eru á heimilinu sem þarf að sinna. Hafðu eftirfarandi atriði í huga til þess að tryggja að allt gangi sem best.

 • Hver er stærsta áskorunin?
  Stærsta áskorun þeirra starfsmanna, sem mæta ekki daglega á starfsstöð, er að halda uppi rútínu og venju. Auðvelt er fyrir þann sem er heima að hægja aðeins á eða fresta hlutum. Besta leiðin til þess að halda gleðinni er því rútínan. Fara að sofa og vakna á svipuðum tíma. Taka sér matarpásur og velja hollan mat umfram ruslfæði. Standa reglulega upp og teygja úr sér. Stjórnendur geta t.d. aðstoðað með því að setja á dagskrá daglegan stöðufund með vefmyndavél eða síma. Þannig er komin skýr byrjun á deginum, skýr samskiptaleið og skuldbinding með teyminu.

 • Vinnuaðstaða
  Mikilvægt er að vinnuaðstaðan heima sé góð svo okkur líði sem best. Ekki vinna í sófanum eða rúminu heldur við almennilegt borð og á góðum stól. Ef þú ert ekki með skrifborð þá er stofuborðið eða eldhúsborðið góður kostur. Ekki hika við að færa borðið í rýmið sem þú vilt vinna í. Gott er að velja rými sem er lítið notað af öðru heimilisfólki. Þrátt fyrir að hægt sé að vinna á fartölvu þá hentar hún ekki endilega til lengri vinnu. Vertu því með góðan skjá ef hæg er, lyklaborð og mús sem þægilegt er að nota. Netið þarf að vera gott og með góðu gagnamagni.

 • Hreyfing er nauðsynleg
  Oft er ekki mikill félagsskapur í boði þegar vinna þarf heima. Nema auðvitað að fleiri á heimilinu séu heima við. Nauðsynlegt að taka frá tíma til þess að hreyfa sig, þó ekki sé nema að fara út í göngutúr. Fá sér ferskt loft og orku í kroppinn sem ýtir undir betra vinnuframlag þegar aftur heim er komið.

 • Ekki tapa þér í fréttunum
  Stöðugt berast nýjar fréttir af COVID-19. Taktu þér endilega pásu frá þeim. Gott er að kíkja einu sinni yfir daginn á stöðu mála. Að lifa og hrærast í fréttum gerir fæstum gott nema að þú hafir atvinnu af því. 

 • Haltu uppi öflugum samskiptaleiðum
  Leyfðu tækninni að vinna með þér. Til eru margar öflugar samskiptaleiðir sem reynast vel. Til að byrja með getur tæknin verið flókin. Við erum öll að finna taktinn og þurfum að venjast nýjum aðstæðum og aðferðum. Sláðu oftar á þráðinn til vinnufélaganna en styttu samtölin í staðinn. Hafðu líka í huga að athuga hvernig öryggismálunum er háttað hjá samskiptamiðlinum ef upplýsingarnar eru viðkvæmar.

 • Stella 5 ára var að bóka þig á fund
  Skólar eru lokaðir eða með minni þjónustustig og íþróttir barna hafa víða fallið niður. Börnin eru því heima og vilja sína athygli. Starfsfólk með börn og skyldur heima fyrir, eiga ekki auðvelt með að vera eins afkastamikið heima fyrir. Spjallaðu við samstarfsfólkið um hvernig og með hvaða hætti þau telja best að sinna starfi sínu. Jafnvægi og sveigjanleiki milli vinnu og einkalífs er hagur allra.

 • Uss ég er að vinna
  Það getur verið freistandi að leyfa börnunum að horfa meira á sjónvarp eða að nota snjalltæki sem barnapíur. En hvernig lítur það út ef að ástandið verður langvarandi? Börnin þurfa í raun tvennt sem mest á meðan þessu stendur: Athygli og rútína. Í stað þess að leita að rafrænum barnapíum, teiknaðu þá upp hvernig dagurinn getur litið út ef núverandi ástand varir lengi. Þú getur t.d. skipt deginum upp og gert stundaskrá fyrir alla á heimilinu. Þannig að allir hafi sín verkefni yfir daginn. Þá er auðveldara að bera virðingu fyrir tíma annarra. Sameiginlegur morgunmatur getur verið á dagskrá áður en allir fara í sín verkefni. Krakkarnir geta æft lestur á meðan foreldri vinnur. Eftir það geta allir farið saman í göngutúr og fengið ferskt loft áður en næsta verkefni er tekið fyrir. Svona getur dagurinn gengið fyrir sig, koll af kolli. Þó að afraksturinn sé ekki sá sami og ef börnin væru í skóla og foreldrar á starfsstöð, þá eru afköstin orðin meiri og athyglin á börnin meira gefandi.

Munum að þetta er tímabundið ástand. Að fást við veiruna og afleiðingar hennar er verkefni sem við öll verðum að taka þátt í. Ef við erum öll almannavarnir þá ganga hlutirnir betur. Gleymum ekki að sumarið er handan við hornið.


COVID-19 og greiðsla iðgjalda

Á þessum óvissutímum, ætlum við ekki að einblína á ein mánaðarmót heldur leggja áherslu á að vera til staðar fyrir viðskiptavini okkar, bæði fyrirtæki og einstaklinga, sem lenda í greiðsluvandræðum. Í því felst t.a.m. að veita viðskiptavinum okkar greiðslufresti, þeim að kostnaðarlausu. Sjá nánar hér.


rows Gott að vita


Hver eru einkenni COVID-19?

Fyrstu einkenni þeirra sem veikjast er ekki ólík kvefpest, til dæmis hiti, þurr hósti, beinverkir, höfuðverkur og þreyta. Þeir sem verða alvarlega veikir geta átt erfitt með öndun og á getur viðkomandi þurft á sjúkrahúsvist að halda. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) telur allt að 14 dagar geti liðið frá því að viðkomandi sýkist þar til einkenni komi fram.

Hvað á ég að gera ef ég finn einkenni?

Ef þú færð þessi einkenni hringdu þá í 1700, á heilsugæsluna eða fáðu spjallráð á heilsuvera.is og farðu eftir þeim fyrirmælum sem þú færð.

Upplýsingasíður um COVID-19

Fá tilboð
mail Hafa samband chat Netspjall
mail chat
close

Tryggingar

Niðurstöður

Skjöl

Niðurstöður

Annað

Niðurstöður

Fréttir

Niðurstöður

News search result

Leit

Niðurstöður

Ææ en leiðinlegt!

Við fundum því miður ekki ""

Athugaðu hvort öll leitarorðin eru rétt skrifuð, annars geturðu prófað að víkka leitina með öðrum eða almennari leitarorðum.

Ef allt um þrýtur, endilega hafðu samband

close Loka
Hafðu samband
bell

Getum við aðstoðað?

Þjónusturáðgjafar okkar aðstoða þig frá 09:00 til 16:00 mánudaga til fimmtudaga og frá 09:00 til 15:30 á föstudögum.

chat

Netspjallið

Þjónusturáðgjafar okkar svara frá 09:00 til 16:00 mánudaga til fimmtudaga og frá 09:00 til 15:30 á föstudögum.

Opna netspjall
coffee

Komdu í heimsókn

Kíktu í heim­sókn og starfs­fólkið okk­ar tek­ur vel á móti þér alla virka daga frá 12-15.

Sjá þjónustuskrifstofur
close Loka

Netspjall VÍS

Við hvern viltu spjalla?
Vinsamlegast sendu ekki lykilorð, kortanúmer eða bankaupplýsingar í gegnum netspjallið. Þú getur skráð bankaupplýsingarnar þínar á þjónustusvæði þínu, Mitt VÍS
Öll samskipti eru vistuð í gagnagrunni. Misnotkun varðar við lög.