Meistaradeild VÍS í hestaíþróttum

Aðalfundur Meistaradeildar VÍS var haldinn í höfuðstöðvum VÍS á dögunum. Á fundinum voru á dagskrá venjuleg aðalfundarstörf auk þess sem liðin voru kynnt og farið yfir dagskrá vetrarins.

Nýr formaður deildarinnar var kjörinn Rúnar Þór Guðbrandsson en Örn Karlsson fráfarandi formaður gaf ekki kost á sér í formannssætið í ár. Örn gaf hins vegar kost á sér áfram í stjórn og var hann kjörinn ásamt öðrum stjórnarmönnum. Stjórn deildarinnar er því skipuð Rúnari Þór Guðbrandssyni, formaður, og meðstjórnendur eru Finnur Ingólfsson, Hjörtur Bergstað, Maríanna Gunnarsdóttir og Örn Karlsson. Fulltrúi VÍS í stjórninni er svo Þór Bæring Ólafsson.


Á aðalfundi Meistaradeildar VÍS var skrifað undir samning við Hestafréttir um áframhaldandi samstarf hvað varðar beinar útsendingar á netinu. Í ár var gerð tilraun með beinar útsendingar og gekk það vonum framar. Á stærstu mótunum voru í kringum 4.000 tölvur tengdar á meðan á keppni stóð og niðurhöl á úrslitaþættina voru allt að 9.000 fyrstu þrjá sólarhringana eftir að móti lauk. Á myndinni sjást þeir Rúnar Þór Guðbrandsson, formaður stjórnar, og Fjölnir Þorgeirsson frá Hestafréttum handsala samninginn.

Þar kom einnig fram að áframhaldandi stamstarf verður við RÚV með þáttaröð frá deildinni og verða þeir með svipuðu sniði og undanfarin ár.

Á aðalfundi Meistaradeildar VÍS voru lið vetrarins kynnt. Enn eiga nokkur lið eftir að tilnefna varaknapa en þeir verða kynntir til leiks í næstu viku. Hægt er að sjá liðaskipan í Meistaradeild VÍS í hestaíþróttum á vef Meistaradeildarinnar - www.meistaradeildvis.is.

Til baka